Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
3.2.2007 | 14:22
Að fá hokkíkylfu í hausinn
Deilunni um hlýnun andrúmsloftsins er lokið. Ekki hefur tekist að breyta þeirri mynd af meðalhita síðustu 1000 ára sem birtist í línuriti Alþjóðanefndar um loftslagsbreytingar (IPCC) árið 2001. Línurit þetta er kennt við hokkíkylfu í Bandaríkjunum. Sú mikla og hraða aukning í meðalhita sem varð upp úr miðri síðustu öld veldur því að línuritið minnir á mynd af hokkíkylfu. Tuttugu af síðustu 25 árum eru heitustu ár sem mælst hafa.
Enginn mótmælir heldur lengur samhenginu milli hlýnunar og koltvísýringsinnihalds í lofthjúpi jarðar. Í 650.000 ár hefur magn koltvísýrings í lofti aldrei verið jafn mikið og nú og menn óttast afleiðingar þess að koltvisýringsinnihaldið fari yfir 500 einingar af milljón. Aukning koltvísýrings hófst með iðnvæðingunni fyrir um 250 árum og nú stefnir í að 500 eininga markinu verði náð um 2050.
Venus er heitasta pláneta sólkerfisins, ekki vegna nálægðar við sólu (Merkúr er nær) heldur vegna gróðurhúsaáhrifa. Lofthjúpur Venusar er 96% koltvísýringur (CO2) og þar er yfirborðshitinn um 480°C.
Á næsta sólarhring, brennum við orku sem tók milljón sólarhringa (2750 ár) að skapa. Afköst okkar við sóun auðlinda og mengun andrúmslofts, er milljón sinnum meiri en endurnýjunarmáttur jarðarinnar.
Heildarnotkun jarðefnaeldsneytis er um 80 milljón tunnur á dag eða 12.720 milljónir lítra. Af þessum fara 847 (66%) milljónir lítra til að knýja flutningatæki. Fólksflutningatæki þar með taldir einkabílar nota af því 462 (55%) milljónir lítra, vöruflutningatæki nota 308 (36%) milljónir lítra og flugvélar 77 (9%) milljónir lítra.
Eldsneytisnýting núverandi véla er um almennt 10%. Það þýðir að 9 lítrar eldsneytis af hverjum 10 sem við kaupum fuðra upp án þess að skila okkur nokkru. Ef 100% nýtingu væri náð gætum við komist af með 85 milljónir lítra á dag til flutninga á fólki og vörum.
29.1.2007 | 20:16